Vefurinn hjarta kynningarherferðar
BSRB samdi um styttingu vinnuvikunnar vorið 2020. Það var mikill áfangi, enda um að ræða stærstu breytingu á vinnutíma launafólks í hálfa öld. Ljóst var að næsta skref yrði að styðja félagsmenn gegnum breytingarnar og fékk Hugsmiðjan það hlutverk að hanna vef og kynningarherferð um styttri vinnuviku.
Hugsmiðjan þekkir af eigin raun ávinning styttri vinnuviku og erum við stolt að því að hafa fengið það verkefni að miðla þessum mikilvæga boðskapi víðar.
Vefurinn hefur það markmið að halda utan um styttinguna, þar má finna hagnýtar upplýsingar ásamt kraftmiklum greinum og reynslusögum sem veita launafólki og stjórnendum innblástur. Því það er til mikils að vinna minna. Vefurinn var hannaður með skilaboð verkefnisins í huga og varð hjartað í kynningarherferð BSRB um styttingu vinnuvikunar.
Kraftmikið myndmál og jákvæð skilaboð
BSRB hefur barist fyrir styttingu vinnuvikunnar í fjölda ára. Hönnunin endurspeglar þann baráttuanda - kraftmikil með sterka og djarfa liti. Útlit fyrirsagna er innblásið af kröfuskiltum og er þannig skírskotun í sögu stéttarfélaga, ástríðu og kraft.
Tónninn í herferðinni var jákvæður, styttingin er í höfn og því ber að fagna. Vinnunni er þó alls ekki lokið, útfærsla styttingarinnar fer fram inn á vinnustöðum. Markmiðið herferðarinnar var að skapa jákvæða samstöðu um það að útfæra styttinguna á sem farsælastan hátt. Styttingin snýst um það að gera drauminn um styttri vinnuviku og fjölskylduvænna samfélag að veruleika og að við getum haft áhrif.
Alvöru reynslusögur í forgrunni
Vefurinn og herferðin í heild sinni byggja á því að miðla efni um ávinning styttri vinnuviku með mannlegri nálgun. Áhersla er lögð á reynslusögur félagsmanna, enda snýst stytting vinnuvikunnar ekki bara um mínútur og klukkutíma, heldur um ávinninginn sjálfan – gæðastundirnar.
Herferðin hluti af stærra samtali
Útfærslan á styttingu vinnuvikunnar fer fram í lýðræðislegu samtali á vinnustöðum hins opinbera. Herferðinni var ætlað að vera hluti af þessu samtali, með því að miðla því sem skiptir félagsmenn máli varðandi styttri vinnuviku og daglegt líf.
Það vann með herferðinni að mikið af efni hennar fékk töluverða sjálfsprottna (organíska) dreifingu á samfélagsmiðlum, auk þess sem líflegar umræður spruttu um vissar færslur. Með þessu fékk BSRB tækifæri til að svara beint ýmsum vangaveltum félagsmanna um styttinguna, án þess að umræðan einskorðaðist við tiltekna vinnustaði.