Endurmörkun Samfylkingarinnar

Nýtt merki og vefur

11.05.2020 Markaðsverkefni

Hugsmiðjan fékk það skemmtlega verkefni að fara með Samfylkingunni í gegnum allsherjar endurmörkun á 20 ára afmæli flokksins. Útkoman er stílhrein og nútímaleg ásýnd sem nýtur sín vel á nýjum vef ásamt nýju merki.

Nýtt merki sveigjanlegt og klassískt

Samfylkingin fagnar 20 ára afmæli í ár og á þessum tímamótum var ákveðið að færa myndrænt efni Samfylkingarinnar inn í nútímann. Hugsmiðjan fékk í hendurnar það skemmtilega verkefni að fara með Samfylkingunni í gegnum allsherjar endurmörkunar ferli. 

Við endurmörkun var eldra merki Samfylkingarinnar skoðað og einnig táknmyndir um rósina, sem hefur verið tákn jafnaðarflokka um árabil. Við vildum halda okkur við þetta sterka myndmál en þó skapa nýja sérstöðu.

Nýja merkið er stílhreint og nútímalegt og býður upp á marga mismunandi útfærslur. Merkið er samsett úr tveimur hálfhringjum, annar táknmynd samstöðu og hinn með munstri sem táknar gegnsæji en einnig fjölbreytileika fólksins í flokknum. Þegar hálfhringirnir mætast myndast rauði hringurinn sem er vísun í eldra merki Samfylkingarinnar. Þegar hálfhringirnir skarast lóðrétt myndast stafurinn S og þannig er komin hreyfanleiki í merkið sem hægt er að nota á skemmtilegan hátt á stafrænum miðlum.

Rauður er og verður litur Samfylkingarinnar

Rauður er óumdeilanlega litur Samfylkingarinnar. Það kom því ekki annað til greina en að halda honum. Við aðlöguðum tón rauða litsins til að gera hann fallegan og aðgengilegan á skjámiðlum. Við völdum því næst litapallettu til að vinna með þeim rauða en hægt er að aðlaga merkið á ýmsan skemmtilegan hátt til dæmis að nota regnbogalitina fyrir fjölbreytileikann og eins stendur það sterkt svarthvítt.

Letrið sem var valið er Neuzeit Grotesk og er skýrt, þjónustumiðað og alveg laust við stæla. Mjög auðlesið og þægilegt að skima yfir það. Letrið er frá 1920 og varð strax vinsælt í prent. Það hefur þó þann eiginleika að það virkar líka mjög vel á stafrænu formi. Letrið er nútímalegt, en sígilt á sama tíma og passar gildum Samfylkingarinnar afar vel.

  • Litir_1609940766434Ný litapalletta


Fögnum líflegri umræðu

Nýja merkið var kynnt 5. maí á 20 ára afmæli Samfylkingarinnar og komu strax upp mjög líflegar umræður um merkið, hvað það táknaði og hvort þar væri að finna skírskotanir í önnur merki eða stefnur. Það er alltaf spennandi að kynna nýtt merki stjórnmálaflokks og viðbúið að upp komi miklar skoðanir og fögnum við líflegri umræðunni. Einn af hönnuðum okkar minnti á þennan sígilda sannleik; Þú sérð ekki heiminn eins og hann er, þú sérð heiminn eins og þú ert. Það eru orð að sönnu. Við óskum Samfylkingunni innilega til hamingju með nýja merkið.

  • Hönnuðir

Birna Bryndís Þorkelsdóttir og Kristján Jón Pálsson hönnuðir

Á stafrænum miðlum má leika sér með hreyfingu í merkinu. Hringurinn býður upp á að merkið sé notað á margvíslegan hátt og með lóðrétti hreyfingu myndar merkið stafinn S. Þessa hreyfingu er hægt er að nota á skemmtilegan hátt á stafrænum miðlum.

 



29.11.2024 : Nýr rekstrarstjóri Hugsmiðjunnar

Ingibjörg okkar hefur tekið við stöðu rekstrarstjóra Hugsmiðjunnar

Nánar