Skapandi teymi með óbilandi trú á mátt hönnunar

19.02.2019

Nýtt hönnunarteymi er tekið við hjá Hugsmiðjunni. 

Jóhanna Helga Þorkelsdóttir og Birna Bryndís Þorkelsdóttir eru nýir hönnunarstjórar Hugsmiðjunnar. Þær mynda hönnunarteymi Hugsmiðjunnar ásamt Kristjáni Jóni Pálssyni vefhönnuði og Áskeli Fannari Bjarnassyni, sem ráðinn hefur verið sem vefhönnuður og sérfræðingur í uppbyggingu hönnunarkerfa (e. design system).

Jóhanna og Birna segjast vera mjög ánægðar með teymið. „Þetta eru virkilega sterkir hönnuðir með mjög fjölbreyttan bakgrunn. Allt frá vef- og grafískri hönnun yfir í myndlist og UX þjónustuhönnun. Þessi þekking nýtist vel í öllum okkar fjölbreyttu verkefnum,“ segja þær.

„Markmið teymisins er að þjónusta  viðskiptavini okkar frá a-ö og taka á öllu sem viðkemur stafrænni framtíðarsýn viðkomandi viðskiptavinar. Við erum í ríkara mæli að nýta okkur hugmyndafræði hönnunarkerfis (e. design system) og þjónustuhönnunar (e. service design). Það er því mjög dýrmætt að fá Áskel til liðs við okkur. Ferðalag og markmið notandans á vefnum er útgangspunktur í öllum verkefnum okkar.“

Vefhönnun er ástríða okkar. Að hanna lausnir sem hafa jákvæð áhrif á hversdagslíf fólks er mjög gefandi. Við einblínum alltaf á notandann og ferðalag hans á vefnum, það er útgangspunkturinn í góðri vefhönnun.

Birna Þorkelsdóttir og Jóhanna Þorkelsdóttir

Nánar um teymið

Jóhanna Þorkelsdóttir útskrifaðist með MFA frá The School of the Art Institute of Chicago árið 2007, áður hafði hún lokið BA í myndlist frá LHÍ. Hún hefur yfir 10 ára reynslu af skapandi störfum en meðfram myndlistinni hefur hún unnið við hönnun og ljósmyndun. Hún stundaði einnig nám í vefþróun við Tækniskólann í Reykjavík. Á milli þessara miðla opnuðust dyrnar að vefhönnun og hefur hún ekki horft til baka síðan. Jóhanna hóf störf hjá Hugsmiðjunni snemma árs 2017.

Birna Þorkelsdóttir útskrifaðist með BA gráðu í Web Development frá Copenhagen School of Design and Technology í janúar 2019, áður hafði hún lokið BA gráðu í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands og Diplóma í vefþróun frá Tækniskólanum. Hún hefur verið hönnunarstjóri Róró frá stofnun þess og séð um alla vörumörkun og ljósmyndun fyrir fyrirtækið og ekki síst vöruna „Lulla doll“ sem hefur náð gríðarlegum vinsældum og selst í meira en 100 þúsund eintökum í yfir 70 löndum. Birna hefur unnið sem vefhönnuður og framendaforritari hjá Cabana, vefstofu í Kaupmannahöfn, síðan byrjun árs 2018 og hóf nýlega störf hjá Hugsmiðjunni.

  • Kristján, vefhönnuður
    Kristján Jón Pálsson
  • Áskell Fanna, vefhönnuður
    Áskell F. Bjarnason

Kristján Jón Pálsson útskrifaðist með BA próf í grafískri hönnun frá Skolen for Visuel Kommunikation í Danmörku 2015. Hann hefur unnið við ýmis skapandi störf frá árinu 2012 sem hafa nýst honum vel, bæði í námi og starfi. Kristján hóf störf hjá Hugsmiðjunni sem skjáhönnuður árið 2016 en hann leggur mikla áherslu á sköpunargleði í sínu daglega lífi. Hann hefur alltaf haft mikinn áhuga á skapandi lausnum sem eru fallegar og notendavænar.

Áskell F. Bjarnason útskrifaðist með Bachelor of Applied Design, Digital Media Design frá Billy Blue College of Design í Sydney, Ástralíu. Áður hafði hann lokið diplóma-námi úr Margmiðlunarskólanum með áheyrslu á þrívíddarhönnun. Eins og Birna hóf Áskell nýlega störf hjá Hugsmiðjunni. Hann kynntist vefhönnun í Billy Blue en hann hefur unnið sem skjáhönnuður síðustu sex ár og lagt áherslu á notendaupplifun og hönnunarkerfi. Á þessum tíma hefur hann fengið tækifæri til að vinna með fjölbreyttum fyrirtækjum og má þar helst nefna MRM/McAnn, ABC Australia, Telstra, Arion banka og Vodafone.


29.11.2024 : Nýr rekstrarstjóri Hugsmiðjunnar

Ingibjörg okkar hefur tekið við stöðu rekstrarstjóra Hugsmiðjunnar

Nánar