Stefnir efnið í óefni?

31.10.2016

Það eru glettilega margir vefir sem standa frammi fyrir áskorunum við að skrifa og viðhalda efni vefjanna; bæði textum og myndefni.

Þetta á sér í lagi við þegar unnið er að heildarendurskoðun vefja, annað hvort í umfangsmikilli tiltekt eða hreinlega í endurhönnun alls vefjarins. Þá vill það reynast yfirþyrmandi verkefni að fara yfir núverandi stöðu og ýmist taka til í því sem til er eða vinna nýtt frá grunni.

Stundum felst áskorunin í því að upprunaleg hönnun og uppsetning vefsvæðisins gerði ráð fyrir ákveðnum efnistökum sem annað hvort eiga ekki við lengur eða sem reynslan hefur leitt í ljós að notendum reynist erfitt að vinna samkvæmt.

Námskeið um vefskrif

Í ljósi þess hvað þetta brennur á mörgum héldum við núna í október mjög vel sótt námskeið í Vefakademíu Hugsmiðjunnar um vefskrif sem hlaut nafnið Skrifað fyrir fólk og leitarvélar.

Þótt ekki sé raunhæft að gera efni sex tíma námskeiðs skil í svona stuttri grein má nefna að sú nálgun sem við unnum út frá þar byggi á svokallaðri efnisstefnu. Efnisstefna getur verið mis ítarleg milli vefsvæða, en í örstuttu máli má segja að í henni sé reynt að skjalfesta svör við spurningum um það við hverja er verið að tala og hvað ætlunin er að segja við þá.

Fyrir þá sem þekkja til vefstefnu má segja að efnisstefna sé eitt af fylgigögnum hennar og kafar dýpra í efnismálin, byggt á forsendum og markmiðum vefstefnunnar.

Vinnu við efni byggt á efnisstefnu má svo lauslega skipta í þrjá fasa:

  1. Greining og mat á núverandi stöðu
  2. Hönnun og útfærsla efnisstefnu
  3. Efnisvinnsla byggð á fyrirliggjandi efnisstefnu

Ferlið þarf ekki að vera flókið og í sumum tilvikum eru ekki endilega skýr skil á milli tveggja fyrstu fasanna. Einnig hefur það að vinna hið raunverulega efni í fasa 3 óhjákvæmilega í för með sér þörf á endurskoðun þeirra forsenda sem lagt var upp með.

Loks er það reynslan úr ferlum hugbúnaðargerðar sem sýnir að betra er hugsa svona ferli sem hringferil frekar en línulegt. Þannig er eðlilegt að brjóta verkefnið upp í smærri einingar, endurmeta reglulega stöðuna og aðlaga efnisstefnuna eftir því sem fram vindur.

Aðkoma Hugsmiðjunnar

Við getum að sjálfsögðu aðstoðað við efnisvinnslu, allt frá greiningu á núverandi stöðu til þess að fullvinna einstaka texta og myndskreytingar.

Reynsla okkar af því að byggja efnisvinnslu á nálgun efnisstefnu hefur verið mjög góð og hefur auðveldað bæði okkur sjálfum og okkar viðskiptavinum að kortleggja hver núverandi staða er, hvers konar greiningar og skjölunar er þörf, og hvers konar efnistýpur er um að ræða í hverju tilviki fyrir sig.

Þar sem góður vefur er samhangandi heild er eðlilegt að mótun efnisstefnu hafi áhrif á til dæmis uppsetningu veftrés og mögulega framsetningu tiltekinna lykilsíðna. Því nýtist teymisnálgun Hugsmiðjunnar sérstaklega vel þegar kemur að endurskoðun vefefnis, þar sem við búum yfir sérfræðingum í efnisvinnslu, myndrænni framsetningu, viðmótsforritun og öllu öðru sem viðkemur notendaviðmóti og birtingu efnis.

Heyrðu endilega í okkur


29.11.2024 : Nýr rekstrarstjóri Hugsmiðjunnar

Ingibjörg okkar hefur tekið við stöðu rekstrarstjóra Hugsmiðjunnar

Nánar