16 tilnefningar til Íslensku vefverðlaunanna

16 tilnefningar fyrir 12 ólíkar veflausnir

24.03.2023

Tilnefningar til Íslensku vefverðlaunanna voru tilkynntar í dag. Vefverðlaunin eru uppskeruhátíð vefiðnaðarins og því fylgir deginum mikil spenna og tilhlökkun!

 Við þökkum viðskiptavinum og samstarfsaðilum kærlega fyrir samstarfið, gleðina og traustið. Við höfum við svo sannarlega ástæðu til þess að fagna þar sem við fengum 16 tilnefningar fyrir 12 ólíkar veflausnir. Við óskum samstarfsaðilum okkar innilega til hamingju með tilnefningarnar!

BHM: Ytri vefur

Flokkur: Meðalstórt fyrirtæki og efnis- og fréttaveita

Nýr ytri vefur BHM fékk tilnefningar í tveimur flokkum, vefurinn er upplýsinga- og þjónustuvefur sem setur notendur í fyrsta sæti, þeir geta fundið fljótt réttar upplýsingar og leyst sín mál. Markmið vefsins er að endurspegla nútímalegt og faglegt starf BHM með áherslu á sérfræðiþekkingu BHM. Vefurinn er nýstárlegur, kvikur, upplýsandi.

Íslandsbanki.is

Flokkur: Fyrirtækjavefur - stór fyrirtæki

Íslandsbanki hefur verið samstarfsaðili Hugsmiðjunnar varðandi hönnun á stafrænum lausnum fyrirtækisins í 5 ár. Stöðug þróun og ítrun á vefsvæði Íslandsbanka sem setur notendur í fyrsta sæti. Sparnaðar- og lánareiknivél, jump menu á efnismiklum síðum, auðkennd erindi þar sem notendur auðkenna sig rafrænt áður en þau senda inn fyrirspurn til bankans sem flýtir fyrir þjónustu. Ítranir á hönnun afgreiðslutíma, samanburða korta og fjölmörg önnur verkefni.

Landsbjörg: Fjáröflunartorg - Landsbjargargjafir

Flokkur: Samfélagsvefur ársins

Slysavarnarfélagið Landsbjörg heldur áfram sinni stafrænu vegferð í samvinnu við Hugsmiðjuna. Árið 2022 unnum við saman að nýrri upplifun notenda í vefverslun Landsbjargar og kynntum til leiks nýja styrktarleið; „Landsbjargargjafir“. Einnig var upplýsingavefur um flugeldasölu Landsbjargar (flugeldar.is) yfirfærður í nýjan tæknistakk og fékk um leið að skarta samræmdu útliti félagsins. 

Landsvirkjun

Flokkur: Fyrirtækjavefur - stór fyrirtæki

Hugsmiðjan forritaði vef Landsvirkjunar sem er fallega hannaður af Arnari Ólafssyni. Við lögðum upp með skýra, fallega kvikun sem hæfði viðfangsefninu. Vefurinn er bjartur og hraður og markmið með nýjum vef var að skapa fallegan, notendavænan og öflugan fyrirtækjavef sem gæti vaxið með stafrænni framtíðarsýn Landsvirkjunar til lengri tíma litið. Helstu ítranir á vefnum eru nýtt formakerfi, LVPower undirsíða, innleiðing á Algolia leitarvél, nýtt skipurit, fjölmiðlatorg, breytingar á leiðarkerfi, og nýtt section scroll.

Lyfjastofnun: Stafræn umbreyting

Flokkur: Stafræn lausn ársins

Hugsmiðjan hefur verið í góðu samstarfi við Lyfjastofnun í yfir 10 ár með þeirra stafrænu lausnir. Stafrænn hönnunarstaðall var útfærður af Hugsmiðjunni sem grunnur að allri stafrænni ásýnd stofnunarinnar ásamt að ný tæknihögun var mótuð og útfærð. Grettistaki hefur verið lyft í stafrænni umbreytingu Lyfjastofnunar síðastliðin ár, með hámarki á árinu 2022 og afraksturinn talar sínu máli.  Ný Sérlyfjaskrá: Gagnvirk lyfjaupplýsingaveita , nýr vörumerkjavefur, nýr ytri vefur, nýr enskur vefur ásamt árskýrsluvef.

Isavia: KEF+ veflausn

Flokkar: Efnis- og fréttaveita

Keflavíkurflugvöllur er í stöðugri þróun og KEF+ er hreyfiafl allra verkefna Isavia sem tengjast uppbyggingu flugvallarins. Nýr vefur KEF+ heldur utan um þessa mikilvægu fjárfestingu til framtíðar, en þar má finna myndir, myndbönd, töluleg gögn og upplýsingum um stöðu verkefna. Afraksturinn er vefur þar sem fallegar myndir og plúsinn dansa saman og töluleg gögn grípa augað.

Ofbeldisgátt 112

Flokkar: Opinber vefur, samfélagsvefur og efnis- og fréttaveita

Ofbeldisgátt 112 er samfélagslega mikilvæg veflausn í baráttu við ofbeldi. Veflausn Neyðarlínunnar hefur það að markmiði að bæta þjónustu Neyðarlínunnar við almenning með því að bjóða nú upp á nýja leið til þess að hafa samband við neyðarverði. Með verkefninu fær Neyðarlínan um leið nýtt hlutverk við það að vera í forsvari í baráttunni gegn ofbeldi. Veflausnin hefur svo sannarlega vaxið og dafnað í okkar góða samstarfi við Neyðarlínuna, Mennska ráðgjöf, Berglind Ósk og Samsýn. Helstu ítranir á veflausninni eru ný forsíða, breytingar á leiðarkerfi, tímalína dómsmála, innleiðing á nýrri og öflugri leitarvirkni þar sem öryggi er alltaf í hávegum haft.

RÚV.is

Flokkur: Efnis- og fréttaveita

RÚV opnaði á dögunum nýjan og glæsilegan vef, en Hugsmiðjan tók þátt í þeirri hönnunarvegferð.

Smart

Flokkur: Markaðsvefur

Askja leggur mikinn metnað í stafræna upplifun viðskiptavina sinna og með nýjum vef fyrir smart#1 fá notendur tækifæri til að skoða bílinn bæði að innan og utan og þeim er boðið í ferðalag inn í framtíðina. Vefurinn er glæsilegur og fangar í senn gæði og tilfinningu um traust og faglegheit auk þess að leiða viðskiptavini inn í framtíðina. Á vefnum er hægt að skoða úrval smart#1 og lesa sér til um eiginleika þeirra og enda síðan heimsóknina á því að skrá sig á póstlista til að komast framar í röðina.

Stafrænt Íslands: Mínar síður og island.is

Flokkar: Vefkerfi og opinber vefur

Við erum einkar stolt af því að taka áfram þátt í því að gera Ísland stafrænt. Nýjungar sem teymi Hugsmiðjunnar hefur útfært á island.is á liðnu ári eru fjölbreyttar: Mínar síður fyrir fyrirtæki . Ökuskírteini, ADR réttindi, skotvopnaleyfi og vinnuvélaréttindi eru nú öll aðgengileg í fáum smellum. Þar að auki geta nú allir nálgast upplýsingar um sín ökutæki og ökutækjaferil, auk uppflettinga í ökutækjaskrá. Nýjasta nýtt er stafrænt vegabréf og vegabréf barna. Stafræn þjónusta í hávegum höfð og fjölmörg framfaraskref á einu ári!

Truenorth

Flokkar: Markaðsvefur, Meðalstórt fyrirtæki

Á nýjum vef Truenorth eru verkefnin í forgrunni ásamt því að dramatísk náttúra landanna sjö þar sem Truenorth er með starfsemi gegnir stóru hlutverki. Frábært myndefni og myndbönd fá því að vera í aðalhlutverki á vefnum og umgjörðin heldur sig til hlés. Ásýnd Truenorth var aðlöguð að kröfum vefbirtingar og framsetningin var krydduð með kvikun sem kitlar augað án þess að stela athygli frá myndum og myndböndum.

Við samgleðjumst okkar samstarfsaðilum innilega því stafrænar lausnir eru okkar hjartans mál og það sem við lifumst og hrærumst í alla daga. Góð stafræn lausn teygir anga sína víða, dýpkar vörumerkið, er miðstöð upplýsinga og gátt út í heiminn. Þess vegna nálgumst við hvert verkefni með stefnumótandi hugarfari og leggjum áherslu á að skilja notendur, markmið þeirra og áskoranir.

Til hamingju allir sem hlutu tilnefningu og við hlökkum til að skála á vefverðlaununum næstu helgi!