Nýr vefur Truenorth slær í gegn

Valinn sem dæmi um það sem best er gert í heiminum

03.02.2023

Í byrjun árs opnuðum við hjá Hugsmiðjunni nýjan vef fyrir framleiðslufyrirtækið Truenorth.

Þetta hefur verið eitt af skemmtilegri verkefnunum sem við höfum unnið undanfarið, enda úr miklu og sjónrænt spennandi efni að moða. Að auki hefur samstarfið við Truenorth gengið einstaklega vel og gaman hvað okkur hefur í sameiningu tekist að skapa þarna skemmtilega heild. Leifur B. Dagfinnsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Truenorth:

Hönnun Hugsmiðjunnar einkenndist af skilningi, hreinum stíl og fágun. Verkið var sérlega fagmannlega unnið og samstarfið var gefandi og skemmtilegt.

Viðmótshönnun og kvikun er innblásin af prentefni Truenorth og frábæru úrvali dramatískra ljósmynda af náttúru og kvikmyndastjörnum, kryddað með grípandi myndbrotum úr verkefnum fyrirtækisins. Hönnunin styður vel við efnið með góðu andrými og hreinum línum í leturnotkun. Letrið er af skalanlegri þykkt (variable font) sem býður upp á mjúkar hreyfingar þegar það er notað á stafrænu formi.

Alþjóðlegar viðurkenningar

Við erum ekki ein um að vera ánægð með afraksturinn því nú í lok janúar var Truenorth vefurinn valinn til birtingar á Siteinspire, sem er einn af áhrifamestu vefjunum sem hönnuðir leita í að leit að innblæstri og dæmum um vel heppnaða útfærslu.

Það sem helst kveikir stolt hjá okkur við valið er að við vitum að það berast að meðaltali yfir 200 innsendingar á dag til Siteinspire, en af þeim er aðeins valin handfylli til birtingar á vefnum hverju sinni. Okkur sýnist (eftir smá njósnagrúsk) að í hverjum mánuði fái Siteinspire nokkur hundruð þúsund heimsóknir, svo það er aldrei að vita nema þetta verði einhverjum innblástur að einhverju spennandi.

Annar mikið sóttur vefur sem safnar spennandi dæmum um nútímalega og vel útfærða vefhönnun er Awwards.com, en Truenorth vefurinn var einmitt valinn þangað inn í byrjun febrúar. Það gildir svipað um Awwwards og Siteinspire, að það eitt að vera valin úr gríðarlegum fjölda innsendinga er árangur út af fyrir sig.

Það kryddar svo stemmninguna að á Awwwards fara í gang tvenns konar kosningar þegar vefir eru valdir þangað inn. Annars vegar er opin kosning sem er öllum opin og hins vegar hjá sérvalinni dómnefnd.

Þegar þetta er skrifað eru nokkrir dagar eftir af atkvæðagreiðslunni og þótt það væri freistandi að reyna að smala atkvæðum, þá eru það einungis dómnefndin og reynslumestu notendur vefsins sem í raun ráða því hvort vefurinn fær formleg verðlaun. Við krossleggjum fingur og bíðum spennt að sjá hvað verður.

Með sömu njósnatilþrifum og áður sýnist okkur heimsóknarfjöldinn á Awwwards fara um eða yfir tvær milljónir á mánuði, þannig að það væri mjög gaman ef við komumst lengra en í flokk tilnefninga.

Auðvitað er svo öllum frjálst að setja sig í spor dómnefndar og greiða vefnum einkunn á síðu verkefnisins.

Spennandi verkefni

Burtséð frá þessum alþjóðlegu viðurkenningum þykir okkur full ástæða til að vera stolt af vefnum. Á bak við hann eru miklar pælingar og fjölmörg handtök sem hvert um sig bætir við smá kryddi.

James Dickie, forritari hjá okkur lýsti ferlinu svona:

„The Truenorth website was at the same time easy and pretty complicated; Easy because the client was great - really responsive, positive and always ready to help us get this project over the line - complicated because the beautiful assets we were working with deserved complimentary motion design, which is never straightforward to pull off in a way that both adds visually to the experience, but also preserves the accessibility & usability of the site. I think we got that balance about right.“

Fyrir þau sem vilja fá meiri innsýn í verkefnið bendum við á verkefnislýsinguna sem við tókum saman. 

Auðvitað er svo sjón sögu ríkari (orðatiltæki sem sjaldan hefur átt betur við) á www.truenorth.is