Komdu í heimsókn
Náttúra og menningarsaga Vatnajökulsþjóðgarðs er einstæð á heimsvísu. Náttúran mótast af mikilli eldvirkni og loftslagi á mörkum hlýrra og kaldra strauma í hafi og lofti. Samspil þessara fyrirbæra og annarra landmótunarafla hefur skapað síbreytilegri og fjölbreyttari náttúru en á nokkru öðru afmörkuðu svæði í heiminum. Í Vatnajökulsþjóðgarði má upplifa sköpun jarðar í beinni útsendingu.
Á vefnum geta gestir þjóðgarðsins kynnt sér fjölbreytta möguleika til útivistar í stórbrotinni náttúru. Þeir geta skoðað svæði þjóðgarðsins, áfangastaði, gestastofur og þjónustu á borð við tjaldsvæði og skálagistingu. Einnig má nálgast fræðslu um svæðið og loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á jökla á Íslandi.
Rafræn gestastofa
Markmiðið með nýjum vef var að leyfa stórbrotinni náttúru að skína í gegn og hrífa notendur með sér. Við greindum ólíka markhópa og skilgreindum markmið og hlutverk vefsins. Góð greiningarvinna í upphafi verkefnis gerði okkur kleift að setja notendur í fyrsta sæti og þannig leiða þá áfram með góðu skipulagi á efni vefsins byggt á þörfum þeirra.
Veftré og vefskipulag var endurhannað frá eldri vef til að auðvelda notendum að flæða um vefinn. Allt efni vefsins var endurskrifað og mikil áhersla lögð á léttara efni sem brotið er upp með fallegum myndum, enda úr nógu að taka frá fallegu svæði þjóðgarðsins. Við lítum á vefinn sem rafræna gestastofu þar sem fólk á að geta fundið upplýsingar og fróðleik um þjóðgarðinn í heild — líkt og í fjölmörgum gestastofum hans um landið. Náttúra og saga þjóðgarðsins eru hjartað í stofnuninni og því vildum við að vefurinn myndi tengja fólk þangað með litum, letri og ljósmyndum.
Draga fram það sem skiptir máli fyrir notandann
Við höfðum miklar væntingar til Hugsmiðjunnar og okkur finnst nýr vefur standast þær. Við erum ótrúlega ánægð með allar þær lausnir sem komu frá Hugsmiðjunni og þau náðu að draga fram það sem skiptir máli fyrir notandann úr þeim djúpa potti af efni sem virtist alltaf dýpka. Samskiptin voru virkilega góð og það skipti okkur máli hversu vel þau skoðuðu efnið og óskir okkar og fundu ávallt lausnir og tækifæri. Við hlökkum til að þróa vefinn áfram með Hugsmiðjunni og þjónusta þannig náttúru og fólk af metnaði og hugsjón.
Stefanía Ragnarsdóttir
Fræðslufulltrúi
Náttúra mótuð af samspili elds og ís
Vatnajökulsþjóðgarður nær yfir allan jökulinn, stór svæði í nágrenni hans og fjölmörg sveitarfélög. Á nýjum vef getur þú skipulagt ferðalagið og skoðað svæðin, hvaða gestastofur þú vilt heimsækja og valið gönguleiðir við hæfi allrar fjölskyldunnar.
Þú finnur upplýsingar um ferðaráð og öryggi, þar á meðal um lokaðar gönguleiðir eða aðrar viðvaranir vegna náttúruvár, enda er stærstur hluti Vatnajökulsþjóðgarðs á hálendi þar sem veður breytist fljótt.