Nýir tímar kalla á nýja hugsun

28.08.2020

Hugsmiðjan og Döðlur snúa bökum saman og birta jafnframt ítarlegar hugmyndir sínar um hvernig markaðssetja skal Ísland á tímum veirunnar.

Nýir kraftar verða til með aukinni samvinnu

Við trúum því að til að ná hámarks árangri í mikilvægum verkefnum þurfi að setja saman sterkasta teymið sem völ er á. Við erum ófeimin við að leita út fyrir raðir okkar eftir þeim hæfileikum og þekkingu sem þarf til að skila sem bestri afurð.

Hugsmiðjan og Döðlur hafa í gegnum tíðina unnið saman að margvíslegum verkefnum.

Hugmyndafræði fyrirtækjanna rímar vel saman; að góð hugmynd stýri öllu sem á eftir kemur, hvort sem það er markaðsefni eða stafrænar lausnir.

Í staðinn fyrir hefðbundna sameiningu eða annað formbundið samstarf, finnst okkur best að halda sambandinu opnu og að nýta frekar teymisnálgun í kringum einstök verkefni. Við vitum að með því að nýta styrkleika beggja fyrirtækjanna og bjóða öðrum með okkur getum við skilað frábærum niðurstöðum.

Þetta gerðum við einmitt þegar við unnum hugmyndir og tillögur um mögulega markaðssetningu Íslands á tímum veirunnar fyrir herferð Íslandsstofu; Saman í sókn.

Saman í skyndisókn

Markaðsherferðin Saman í sókn var ein af þeim aðgerðum sem kynntar voru af ríkisstjórninni á viðbragðsfundi vegna Covid-19. Útboð vegna útfærslu herferðarinnar var sett í flýtiferli og auglýst á EES svæðinu eftir hugmyndum og heildarnálgun varðandi markaðssetningu Íslands.

Við vorum ekkert sérstaklega að spá í þetta verkefni á þeim tíma, enda voru það aðallega hefðbundnar auglýsingastofur sem strax fóru í að kynda kaffivélarnar og ydda blýantana. Það var ekki fyrr en Sigurjón Sighvatsson hnippti í Margeir hjá Hugsmiðjunni varðandi verkefnið sem boltinn rúllaði af stað. Eftir að hafa aðeins melt hugmyndina hafði Margeir samband við Daníel Frey hjá Döðlum og þeir tóku í sameiningu þá klikkuðu ákvörðun að hella sér í þetta, sex vikudögum fyrir skil.

Það losnaði strax einhver orka úr læðingi og kjarnateymi var sett saman samdægurs. Teymið þurfti að taka á sprett, enda höfðu aðrir þátttakendur þegar unnið að verkefninu í nokkrar vikur en við höfðum aðeins örfáa daga til stefnu. Það voru allir meðvitaðir um pressuna, en um leið að það kæmi ekkert annað til greina en að skila og gera það frábærlega.

„Djöfulsins vesen er þetta! Og öll þessi skriffinska! En við erum náttúrlega allan tímann að fara að gera þetta! “

Til viðbótar við kjarna eigin sérfræðinga fengum við með okkur þá sem upp á vantaði til að búa til rétta draumateymið. Það gekk raunar lygilega vel að fá aðra með okkur í þessa skyndisókn.

Frasinn „Ísland er draumalandið“ tókst á flug á einum af fyrstu hugmyndafundunum. Hver er þá betri til að taka hugmyndina um Draumalandið skáldlegum tökum heldur en verðlaunahöfundurinn Andri Snær Magnason (sem bókstaflega skrifaði bókina)? Kvikmyndaframleiðandinn, Sigurjón Sighvatsson bar ábyrgð á ferðalagi um Ísland í sýndarveruleika. Innsýn í tölfræðigreiningu og nútíma stafræna markaðssetningu veittu Emil Harðarson og Gísli Steinar Ingólfsson, sem báðir hafa unnið með Hugsmiðjunni áður – og svona mætti lengi telja.

Þarna vorum við komin með lið fyrir stórsókn; með hæfileika sem spönnuðu allt frá beinharðri talnagreiningu yfir í ljóðræna og skáldlega sýn á viðfangsefnið. Teymið vann myrkranna á milli og að íslenskum hætti skiluðum við okkar hugmyndavinnu tveimur mínútum áður en skilafresturinn rann út.

Afrakstur sóknarinnar

Í stuttu máli var okkar tillaga metin í fjórða sæti af þeim 15 sem bárust. Okkur tókst því það sem við lögðum upp með; að skila heilsteyptri hugmyndavinnu og saxa á forskotið sem aðrir höfðu aflað sér.

Til að gefa innsýn í nálgun okkar, samvinnuna að baki þessu tiltekna verkefni og hugmynd um hvernig við gætum tekist á við síðari tíma verkefni ákváðum við að birta okkar vinnu í verkefnalista Hugsmiðjunnar.

Rökin fyrir samspili

Ef klisjan um nýja tíma hefur einhverntímann átt við hlýtur það að vera núna.

Það er enn mikilvægara nú en áður að fyrirtæki hugsi alla sína strategíu heildrænt og ef þau ætla að ná árangri á þessum tímum verða þessir tveir frumkraftar að mætast – sköpun og tækniþróun.

Með þessu opna samspili geta Hugsmiðjan og Döðlur boðið viðskiptavinum eins víðtæka þjónustu og mögulegt er og aðstoðað þau við þá aðlögun sem þarf að eiga sér stað vegna örra breytinga á landslagi og þörfum markaðarins. 

Þau fyrirtæki sem ekki taka þetta kall nútímans alvarlega eiga hættu á að heltast úr lestinni.

Auglýsingamennska þarf líka að breytast í takt við þarfir fólks. Rétt markaðssetning getur komið hreyfingu á hlutina, jafnvel breytt heiminum. 

Það er ekki lengur nóg að auglýsa vöruna þína til sölu, fyrir utan það hversu leiðinlegt það er. Ekki vera sölumaður, vertu sögumaður.

Um Döðlur

Döðlur er hugmynda og hönnunarfyrirtæki með áralanga reynslu af fjölbreyttum skapandi verkefnum. Döðlur voru stofnaðar árið 2012 þegar þeir Daníel Atlason og Hörður Kristbjörnsson sameinuðu krafta sína eftir að hafa unnið saman áralangt með góðum árangri á auglýsingastofum meðal annars að herferðum fyrir Hringdu, Bláa Lónið, Sinfoníuhljómsveit Íslands, Landsbankann, 66°N og Icelandair.

Döðlur hafa fengist við allt frá auglýsingaherferðum og mörkun yfir í ljósmyndun, sjónvarpsauglýsingar, hönnun á hótelum og veitingastöðum ásamt því að hafa verið í fjölbreyttri vöruþróun á eigin fatnaði, húsgögnum og nú síðast einingahúsinu Hedgehog. 

Um Hugsmiðjuna

Hugsmiðjan er hönnunarstofa með áherslu á stafræna vöruþróun, hugbúnaðargerð og markaðssetningu. Fyrirtækið var stofnað árið 2001 og í tæplega tvo áratugi hefur það hjálpað sínum viðskiptavinum við að ná árangri með nýrri tækni og framúrskarandi notendaupplifun á öllum miðlum. Hjá Hugsmiðjunni starfa um 25 manns; hönnuðir, forritarar og ráðgjafar sem vinna eftir sameiginlegri sýn.

Verkefni Hugsmiðjunnar spanna allt frá virðulegum stofnanavefjum til snarpra markaðsherferða. Yfir 250 vefsvæði eru í hýsingu og rekstri hjá Hugsmiðjunni og árið 2019 sóttu 498 nemendur 30 námskeið hjá Vefakademíu Hugsmiðjunnar. Meðal nýlegra verkefna má nefna hönnunarkerfi fyrir Íslandsbanka og Reykjavíkurborg, margverðlaunaða vefi Krabbameinsfélagsins, Borgarleikhús og Þjóðleikhús auk vefja sveitarfélaga og stofnana. Í markaðsmálum hefur Hugsmiðjan m.a. skipulagt stærstu undirskriftasöfnun Íslandssögunnar, unnið nýja ásýnd Samfylkingarinnar, auk markaðssetningar á þjónustu og viðburðum Nova, Mottumars og Bleiku slaufunni – svo fátt eitt sé nefnt.


29.11.2024 : Nýr rekstrarstjóri Hugsmiðjunnar

Ingibjörg okkar hefur tekið við stöðu rekstrarstjóra Hugsmiðjunnar

Nánar